Karfan er tóm.
Zinkhúðun
Heitzinkhúðun er einhver öflugasta ryðvörn sem til er.
Á Akureyri erum við með zinkkar sem er 9m á lengd, 0,9m á breidd og 1,8m á dýpt.
Hægt er að dýfa lengri hlutum en 9m og er þá hlutnum tvídýft, hægt er að húða bita allt að 12 metrum að lengd og meðhöndla einstök stykki sem vega allt að 4 tonnum.
Við flytjum efni á milli Akureyrar og Hafnarfjarðar tvisvar í viku, sendum og sækjum á höfuðborgarsvæðinu.
Að baki liggur áratuga reynsla við zinkhúðun á stáli og við leggjum ofuráherslu á gæði og vönduð vinnubrögð.
En til þess að gæðin geti orðið sem allra best þá er það mjög mikilvægur þáttur hvernig staðið er að smíði og frágangi hlutanna til zinkhúðunar.
Viðskiptavinurinn fær vandaðri, betur útlítandi og ódýrari vöru ef rétt og vel er staðið að hlutunum.
Aldrei má vera lokað loftrými þar sem það getur valdið sprengingu.
Að ýmsu þarf að hyggja til að ná sem bestum gæðum.
Helstu þættirnir eru:
Gata þarf alla hola prófíla við báða enda ásamt upphengigötum og kverkar helst þannig útfærðar að bráðið zinkið eigi auðvelt með að renna í burtu en safnist ekki fyrir í „skápum“ og kverkum.
Stálið vigtar að jafnaði 5-10% meira eftir zinkhúðun jafnvel enn meira ef mikið er um staði sem zinkið getur safnast fyrir í og þar sem verðlagt er eftir þyngd hluttanna eftir húðun er það því augljós hagur viðskiptavinarins að hlutirnir séu vel úr garði gerðir.
Tafla yfir æskilegar gatastærðir fyrir húðun.
Yfirborð hlutanna þarf að vera hreint (má vera ryð) og laust við alla málningu, lakk, olíu, feiti, túss, suðugjall og suðuspraut.
Ef notað er hreinsiefni til varnar því að suðusprautið festist við stálið þarf að skola það af eða hreinsa á annan hátt.
Málaða hluti og áður zinkhúðaða þarf í öllum tilfellum að sandblása fyrir zinkhúðun, eins ef stálið er mjög ryðgað, þykk lög af ryði.
Val af stáli til zinkhúðunar. Zinkhúðunin getur orðið misjöfn, að lit, áferð og þykkt eftir stálgerðum og sum efni eru alls ekki heppilegt til zinkhúðunar.
Zinkþykkt. Zinkhúðað er samkvæmt staðlinum ÍS/EN ISO 1461. Zinkþykktin sem sest á stálið er háð stálþykktinni, ISO staðlar sem unnið er eftir í verksmiðjunni og gilda hér á landi kveða á um þá lágmarks þykkt sem framleiðandi ber að tryggja að sé á vörunni að galvaniseringu lokinni.
Zinkþykktirnar eru gefnar upp í micronum og mældar með sérstökum þykktarmælum, fyrir stálþykktir frá 1,5mm til 8 mm er zinkþykktin ca. 50 til 90 micron.
Hægt er að ná þykkara zinklagi á stálið með því að lengja dvalatímann í bráðinu og með því að auka stálþykktina sem hluturinn er smíðaður úr, hægt er að ná allt að 200 microna zinkþykktum á stálhluti.
Endingartími. Zinkhúðin sem sest utan á stálhlutinn við heitgalvaniseringu er varnarhúð sem ver stálið gegn tæringu og ryðmyndun.
Sá tími sem zinkhúðin virkar sem tæringarvörn fyrir stálið er háð þykkt zinklagsins sem er á stálinu.
Því í tímans rás veðrast og tærist zinkið af stálinu.
Hvað mikið tærist í burtu af zinklaginu á hverju ári er mjög háð hversu tæringarríkt umhverfið er sem hluturinn er í. Tæringarmælingar á Íslandi sýna að 0,5 til 2 micron tærast í burt af zinklaginu á hverju ári.
Mestur er tæringarhraðinn við suðurströndina ca 2 micron en mun minni við norður- og austurströndina og minnkar tæringarhraðinn svo inn til landsins með minnkandi raka og minnkandi seltu í umhverfinu.